Heimsókn vestur á firði

Birt þann
2.4.2024

Skemmtileg páskahelgi að baki með ævintýralegu ferðalagi um Vestfirði, sem eru mínir heimahagar í móðurætt. Við lögðum í hann á skírdag. Eftir stutt stopp í Borgarnesi keyrðum við Suðurfirðina í blíðskaparveðri alla leið til Patreksfjarðar þar sem við hittum heimafólk í félagsheimilinu. Þaðan lá leiðin í Bingó á Bíldudal og svo alla leið í Bolungarvík þar sem við héldum hádegisverðarfund í Verbúðinni á föstudaginn langa. Um eftimiðdaginn ókum við til  Ísafjarðar þar sem  Aldrei fór ég suður var í fullum gangi.  Við mættum á ljósmyndasýningu til heiðurs sjálfboðaliðum sem hafa haldið þeirri einstöku hátíð uppi í tvo áratugi og héldum opinn fund í Tónlistarskólanum í Hömrum. Við tók gómsætur kvöldverður heima hjá gestgjöfum okkar, Bergþóri Pálssyni og Alberti Eiríkssyni, og í framhaldinu skemmtileg og fjölbreytt tónlistardagskrá Aldrei, sem við nutum í góðum félagsskap. Það er ómögulegt að nefna eitt atriði fram yfir annað, svo glæsileg var dagskráin, en þegar troðfull skemman söng Stingum af” og ruggaði sér saman undir forystu Mugisons, þá langaði mig bara alls ekkert til að stinga af!

Samheldin samfélög

Hvar sem við komum hittum við fyrir gestrisið fólk sem leggur áherslu á mikilvægi öflugs atvinnulífs og samheldni í samfélaginu. Samvera eykur samheldni og þegar við renndum við á Bíldudal á leiðinni vestur stóð yfir bingó með um 170 þátttakendum á öllum aldri. Á eftir borðuðum við “fisk og franskar” hjá Gísla á Vegamótum, hans landsfræga rétt. Við erum sammála öðrum um að Vegamótaútgáfan af “fish-and chips” er sérlega vel heppnuð.   Það var greinilega smávegis bingóþema fyrir vestan þessa páskahelgi því Hr. Gunnar Ólafsson, vertinn á Verbúðinni í Bolungarvík, eldaði fyrir okkur dásemdar fiskisúpu úr eigin sjávarfangi og rauk svo strax að loknum fundi til Þingeyrar til að stýra þar bingói!

Aukum friðsæld

Vestfirðingum er áframhaldandi uppbygging blómlegs atvinnulífs mikið hjartans mál og áherslur mínar á sjálfbærni og jafnrétti fyrir öll fengu góðan hljómgrunn. Talsvert var rætt um mikilvægi þess að velja frið í stað þess að skipa okkur í lið.. Þjóðfélagsumræðan í mikilvægum málaflokkum er að margra mati of svart/hvít og fólk minnir á  mikilvægi þess að geta rætt mál og bera virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum. Án þess er erfitt að vinna að aukinni friðsæld og samheldni í íslensku samfélagi.

Pönnukökubakstur

Á Ísafirði stýra vinir okkar, Bergþór og Albert, tónlistarskóla sveitarfélagsins ásamt því að halda margrómaðar veislur. Senn líður að lokum fjögurra ára Ísafjarðardvalar þessara höfðingja, sem hafa sannarlega sett svip á lífið í kringum sig.  Við erum þeim innilega þakklát fyrir að vera gestgjafar á viðburði í Hömrum, þar sem Albert og gestir spurðu mig spjörunum úr. Við enduðum síðan á að syngja saman undir forystu Bergþórs. Albert skerpti einnig á kunnáttu minni í pönnukökubakstri og ég var í lokin orðin nokkuð leikin við að snúa þeim himinhátt í loftinu!

Mikilvægi sjálfboðastarfs

Fólkið fyrir vestan er skemmtilega hreinskiptið og að mínu skapi. Í stíl við það skoðuðum við ljósmyndasýningu á Ísafirði sem bar yfirskriftina "Það gerir enginn rassgat einn". Þar var sjálfboðaliðum tónlistarhátíðarinnar "Aldrei fór ég suður" fagnað með einstökum hætti. Við sem gefum kost á okkur til opinberra embætta og þátttöku í stjórnmálum þekkjum þýðingu öflugs sjálfboðastarfs afskaplega vel. Ég tek sannarlega undir það, að það gerir enginn neitt merkilegt einn.

Að byggja brýr

Að sjálfsögðu eru samgöngur og orkuöryggi Vestfirðingum hugleikin málefni. Einnig hafa þeir skiljanlegar áhyggjur af gjánni milli landsbyggðar og höfuðborgar. Þessi gjá verður ekki  brúuð nema með  miklum og góðum samskiptum og gagnkvæmri virðingu og skilningi. Ef ég fæ til þess brautargengi,  ætla ég að leggja mitt af mörkum í þeim efnum með ótvíræðum hætti. 

Bjartir tímar

Það eru bjartir tímar framundan á Vestfjörðum og þess sér merki víða, meðal annars í uppgangi atvinnulífs, ferðaþjónustu og skapandi viðburðahalds. Náttúran er einstök sem og fólkið sem þarna býr og viðmælendur mínir minntu mig ítrekað á að enginn hefði orðið forseti án tengingar við Vestfirði. Ekki veit ég hvort satt er, en ég veit að ég er stolt af mínum vestfirsku rótum og þakklát fyrir frændfólkið sem ég hitti í hverju byggðarlagi. Takk fyrir að taka svona vel á móti okkur Bjössa, kæru vinir, ættingjar og stuðningsfólk! Við sjáumst fljótt aftur.

Örfá orð um málskotsréttinn

Mig langar að lokum og að gefnu tilefni, að tala stuttlega um afstöðu mína til málskotsréttarins. Forseti Íslands hefur samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar heimild til að vísa lögum í dóm þjóðarinnar. Málskotsrétturinn er mikilvægur öryggisventill, sem ég myndi svo sannarlega nýta ef svo virtist sem gjá hefði myndast á milli þings og þjóðar. Það er mikilvægt að umgangast málskotsréttinn af virðingu og forseta ber að hlusta vel á öll sjónarmið áður en komist er að þeirri niðurstöðu að þjóðin þurfi að ákveða með atkvæðagreiðslu hvort lögin öðlast gildi. Sem dæmi má nefna mannréttindi og grundvallarhagsmuni þjóðarinnar  og næstu kynslóða eins og var í tilfelli Icesave. Um þessa afstöðu mína og margt fleira má lesa  á vefsvæði mínu. Ég held þessu mikilvæga atriði til haga hér í Helstinu þar sem það ber reglulega á góma á fundum, nú síðast  á ferðalaginu um Vestfirði um helgina.