Hver er Halla?

Halla er alin upp á Kársnesi í Kópavogi og á ættir að rekja til Skagafjarðar og Vestfjarða. Hún er frumkvöðull og rekstrarhagfræðingur með meistaragráðu og hóf starfsferil sinn í Bandaríkjunum hjá fyrirtækjunum Mars og Pepsi Cola. Halla kom að uppbyggingu Háskólans í Reykjavík þar sem hún stofnaði og leiddi meðal annars Opna háskólann og verkefnið Auður í krafti kvenna.

Halla hefur ávallt haft brennandi áhuga á forystu og frumkvöðlastarfsemi og hefur kennt þúsundum nemenda á öllum aldri. Hún varð fyrst kvenna framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs vorið 2006. Ári síðar stofnaði Halla ásamt Kristínu Pétursdóttur fjármálafyrirtækið Auður Capital. Fyrirtækið lagði áherslu á ábyrgar fjárfestingar og að skila hagnaði á grunni góðra gilda. Auður Capital og viðskiptavinir þess fóru tjónlaust gegnum efnahagshrunið árið 2008. Halla kom í kjölfarið að stofnun Mauraþúfunnar sem hélt Þjóðfund árið 2009 þar sem slembiúrtak þjóðarinnar vann að framtíðarsýn og gildum þjóðarinnar.

Halla hefur síðastliðin sex ár verið forstjóri B Team þar sem hún starfar á heimsvísu að sjálfbærni, jafnrétti og ábyrgð í forystu. B Team vinnur með fyrirtækjastjórnendum og stjórnmálaleiðtogum að bættu siðferði sem og réttlátum og gegnsæjum reglum fyrir efnahags- og viðskiptalíf. Halla er vinsæll alþjóðlegur fyrirlesari og hefur meðal annars stigið fjórum sinnum á TED-sviðið ásamt því að halda fyrirlestra fyrir stærstu fyrirtæki heims.

Fjölskylda Höllu

Halla er gifti Birni Skúlasyni. Björn er alinn upp í Grindavík og á ættir að rekja á Norðurland, Austurland og Suðurland. Hann spilaði fótbolta samhliða háskólanámi í Bandaríkjunum og lauk síðar meistaragráðu í stjórnunarsálfræði í Bretlandi. Hann starfaði um árabil í tryggingar- og fjármálafyrirtækjum áður en hann venti kvæði sínu í kross og fór í heilsukokkanám. Í dag rekur hann eigið fyrirtæki, sem nefnist just björn, en það framleiðir og markaðssetur norrænar náttúru- og heilsuvörur.

Halla og Björn eiga tvö börn, sem bæði eru í háskólanámi í New York. Tómas Bjartur stundar þar nám í viðskiptafræði og spilar fótbolta og Auður Ína nemur sálfræði.

Móðir Höllu heitir Kristjana Sigurðardóttir, hún er þroskaþjálfi og ein tíu systkina sem ólust upp á Djúpavík á Ströndum þar sem afi Höllu, Sigurður Pétursson, var útgerðarmaður og amma hennar, Ína Jensen, vann við símaþjónustu.

Faðir Höllu lést haustið 2008. Hann hét Tómas Þórhallsson og var pípulagningameistari en lauk starfsævinni sem húsvörður í Sunnuhlíð í Kópavogi. Hann bjó fyrstu æviárin á Hofi í Hjaltadal en missti ungur foreldra sína og fór þá í fóstur á Kolkuósi og var seinna vinnumaður í Borgarfirði en komst svo til mennta í Reykjavík. Halla á tvær systur sem báðar starfa á leikskóla.

Fjölskyldan á góðri stundu með uppáhaldi allra honum Mola sem kvaddi fjölskylduna nú í febrúar og hélt í sumarlandið.