Vestfirðir, B Team og hlaðvörpin

Birt þann
28.3.2024

Vestfirðir

Við Bjössi verðum ásamt frændfólki á ferðinni um Vestfirði núna um páskana og ég vil endilega hvetja öll sem geta til að hitta okkur á þremur viðburðum á Patreksfirði, í Bolungarvík og á Ísafirði. Ég hlakka til að heimsækja tónlistarhátíðina “Aldrei fór ég suður” og mun gera það með sólskinsbros og stemningu í veganesti. Dagskrá með Ham, Mugison, GDRN, Nönnu og Hipsumhaps getur ekki klikkað og ekki er síðra að forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setur hátíðina! Fyrst hittum við þó fólkið okkar.

Patreksfjörður

Við munum byrja í fundarsal félagsheimilis Patreksfjarðar í dag, Skírdag, . Patreksfirðingar voru miklir frumkvöðlar í útgerð og fiskveiðum; hófu þilskipaútgerð fyrstir Vestfirðinga og voru jafnframt í forystu í togaraútgerð. En þarna er menningararfleifðin sömuleiðis rík með skáldið Jón úr Vör og listmálarann Kristján Davíðsson í broddi fylkingar. Að ógleymdri heimildamyndahátíðinni Skjaldborgu. Þarna gekk mamma líka í skóla nokkur misseri og Gústi P., bróðir afa var lengi sveitarstjóri Að ógleymdu því að langafi, Pétur Sigurðsson, var einn af stofnendum verkalýðsfélagsins í bænum. Vonandi sjáum við sem flest á staðnum. Hérna er Facebook-viðburður fyrir Patreksfjörð.

Bolungarvík

Því næst verðum við í Verbúðinni í Bolungarvík á Föstudaginn langa, kl. 12:00. Í þessu magnaða sjávarplássi slær útgerðarhjartað í sterkum takti og þetta er ein elsta verstöð landsins. Bolungarvík hefur alltaf staðið mér nærri og þarna á ég  bæði frændfólk og vini. Hérna er Facebook-viðburður fyrir Bolungarvík.

Ísafjörður

Á Föstudaginn langa, 29. mars, kl. 16:30, taka kærir vinir, Albert Eiríksson og Bergþór Pálsson, á móti okkur í Hömrum á Ísafirði. Mér finnst líklegt að við Albert hendum í pönnukökur, en hann hefur sagt mér að það geri hann með fjórar kraumandi pönnukökupönnur á sama tíma. Enn ein tenging mín við Ísafjörð er að ég er skírð í höfuðið á Höllu, sem rak ásamt Kristjáni lengi skóbúðina á Ísafirði. Hérna er Facebook-viðburður fyrir Ísafjörð.

Hvað er B Team?

Ég hef aðeins rekið mig á það upp á síðkastið að fólk velti vöngum yfir B Team þar sem ég hef starfað sem forstjóri undanfarin sex ár. Stutta útskýringin er að B Team eru samtök alþjóðlegra leiðtoga sem vinna saman að sjálfbærni, jafnrétti, jöfnuði og aukinni ábyrgð í forystu og viðskiptum. Samtökin eru góðgerðarsamtök og  ekki rekin í hagnaðarskyni. Starfið fer fram á heimsvísu og felst ekki síst í því að hvetja viðskiptalífið til að axla ábyrgð á áhrifum sínum á umhverfi og samfélag og hvetja stjórnvöld til að tryggja að þær leikreglur sem snúa að viðskiptalífinu tryggi vellíðan fólks og umhverfis.

Hjá B Team leiðum við ólíka aðila og kynslóðir að sama borði til að freista þess að virkja skapandi samtöl um betri framtíð fyrir okkur öll og þetta hefur verið ótrúlega gefandi vinna. Leiðtogarnir í B Teams eru rúmlega 30 talsins í augnablikinu og meðal meðal þeirra eru fyrrverandi þjóðarleiðtogar og forystufólk í mannréttindum, loftslags- og umhverfismálum, ásamt forstjórum fyrirtækja. Höfuðstöðvar samtakanna eru í New York og ég hef jöfnum höndum starfað þar og hér á Íslandi síðustu árin. Ég fjalla nánar um menntun mína, fyrri störf og B Team á vefsvæði mínu.

Tölum um

Viðburðaríkir dagar eru bestir og ég  þáði góð boð í nokkur hlaðvarpssamtöl í vikunni. Þannig ræddum við Bjössi um hjónabandið og okkar viðburðaríku vegferð undanfarinn aldarfjórðung hjá Gumma kíró, en hlaðvarpið hans nefnist "Tölum um".

Jákastið

"Jákastið" kom í kjölfarið, en það er hlaðvarp þar sem Kristján Hafþórsson ræðir við hlustendur um mikilvægi jákvæðni, gleði og hugrekkis. Við Krissi áttum spjall á einlægu nótunum og vorum sammála um að hugarfar er val.

Athafnafólk

"Athafnafólk" er hlaðvarpsþáttur þar sem talað er við frumkvöðla og stjórnendur sem hafa náð árangri í viðskiptalífinu. Umsjón með þáttunum hefur frumkvöðullinn Sesselja Vilhjálmsdóttir og við deilum ástríðu fyrir fjölgun kvenfrumkvöðla og fjölbreyttu fjárfestaumhverfi.. Í þessu áhugaverða samtali er starfsferill minn í aðalhlutverki.

Viðskiptaráðsárið

Heimildin spjallaði við mig á þriðjudag og í því viðtali ræddum við meðal annars hvernig skoðanir mínar hafa þróast frá því að ég starfaði hjá Viðskiptaráði í rúmlega ár, 2006 til 2007. Ég sagði því starfi upp til að stofna Auði Capital á afmælisdegi Vigdísar Finnbogadóttur, hinn 15. apríl 2007. Það gerði ég þar sem ég fann ríka þörf til að starfa að minni sýn á grunni gilda sem setja  samfélagslega ábyrgð í aðalhlutverk.

Samstöðin

Í vikunni heimsótti ég Samstöðina og settist niður með Gunnari Smára Egilssyni til að fara yfir sviðið í þættinum Rauða borðinu. Við gáfum okkur góðan tíma, fórum nokkuð djúpt í flesta hluti og samtalið varð 75 mínútur. "Samstöðin er samfélagssjónvarp og vettvangur fyrir róttæka samfélagsumræðu og raddir þeirra sem ekki fá rúm í umfjöllun meginstraumsmiðla," eins og þau orða það sjálf.

Hérna er samtalið sem myndskeið.

Svo er það einnig á Spotify sem hlaðvarp:

Spurt og svarað

Mínar ómissandi hjálparhellur í vefmálum og samfélagsmiðlum hafa nú sett í loftið vefsvæði með ítarlegum upplýsingum um forsetaframboð mitt. Þar er að finna aðgengilegar upplýsingar um mig og framboðið ásamt því sem við vekjum þar athygli á viðburðum næstu vikur og mánuði.

Samantekt á Spotify

Á Spotify er núna að finna spilunarlista með þeim hlaðvörpum og viðtölum sem ég hef farið í síðustu árin og hafa verið sett inn á þá streymisveitu. Efnistökin eru fjölbreytt og í dag eru þarna um 19 viðtöl upp á einhverjar 24 klukkustundir samtals. Kjörið að staldra þarna við fyrir fólk sem vill kynna sér mig og málefnin sem ég brenn fyrir.