Hugrekki er ákvörðun

Birt þann
10.4.2024

Hugrekki til að hafa áhrif“ var titillinn á bók sem ég skrifaði og bókaforlagið Salka gaf út á síðasta ári. Hugrekki er eitt af mínum kjarnagildum. Það þurfti hugrekki til að slást í hópinn og byggja upp nýjan háskóla árið 1999 og árið 2007 krafðist það kjarks að gerast frumkvöðull og stofna fjármálafyrirtæki sem lagði áherslu á ábyrgð fyrirtækja og fjárfesta á samfélagi og umhverfi. En ég trúi að hugrekki sé til alls fyrst og veit að við Íslendingar erum hugrökk þjóð.

Leiðarljós í lífi og starfi

Ég tel að Íslands bíði mikilvæg tækifæri í heimi sem leitar lausna hvað snertir frið, jafnrétti og sjálfbærni. Á þessum sviðum eigum við að vera til fyrirmyndar á heimsvísu. Slíkri ákvörðun eða vali fylgja margvísleg sóknarfæri til verðmætasköpunar og jákvæðrar framþróunar fyrir íslenskt samfélag. Ég veit að á þessum sviðum get ég lagst á árar svo um munar. Það er meginástæða þess að ég býð mig á nýjan leik fram til embættis forseta Íslands.

Friður, jafnrétti og sjálfbærni með heilbrigðu jafnvægi milli atvinnulífs, heilsu fólks og umhverfis eru þau málefni sem ég brenn fyrir og skipta næstu kynslóðir mestu máli. Þetta hafa verið mín leiðarljós í lífi og starfi, nú síðustu árin á alþjóðlegum vettvangi leiðtoga í atvinnulífi og stjórnmálum. Þar hef ég fengið dýrmæta reynslu og byggt upp öflugt alþjóðlegt tengslanet, sem ég hlakka til að nýta í þágu lands og þjóðar.

Viðburðaríkir dagar

Síðustu dagar hafa verið viðburðaríkir og enn hefur bæst í hóp frambjóðenda. Ég býð mig fram óháð mögulegum meðframbjóðendum eins og fram kom í stuttu viðtali við mig Morgunblaðinu. Ég býð mig fram af því að á mér hvíla mikilvæg mál sem þarf að tala um og leiða fólk til samtals og samstarfs um. Kosningabaráttan er rétt að byrja og ég get vart beðið eftir fleiri tækifærum til að ræða við fólk um allt land um framtíð okkar einstaka samfélags.

Heiðarleiki, jafnrétti, virðing, réttlæti, ábyrgð

Ég hef mikið verið að velta fyrir mér hvernig við ræktum best samtal og samstarf á milli kynslóða um það hvers konar samfélagi við viljum búa í og skapa fyrir næstu kynslóðir Íslendinga. Á Þjóðfundi árið 2009 valdi slembiúrtak þjóðarinnar sér sameiginleg gildi sem þátttakendur vildu að vörðuðu leiðina að sjálfbæru samfélagi. Gildin voru heiðarleiki, jafnrétti, réttlæti, virðing og ábyrgð. Við sem skipulögðum Þjóðfundinn og vorum í Laugardalshöllinni þennan dag gleymum aldrei þeirri orku sem leystist úr læðingi þegar þjóðin átti þetta einstaka og mikilvæga samtal. Við sáum einlægan vilja fólks til að vinna saman að því að móta framtíðarsýn og gildi þjóðarinnar. Þessa vinnu mun ég taka með mér á Bessastaði og virkja enn frekar visku þjóðarinnar í að móta þennan áttavita enn betur. 

Dætur og synir Íslands

Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að horfa á stelpurnar okkar sigra mikilvæga landsleiki í liðinni viku. Fótboltalandslið kvenna keppti við Pólland og sigruðu 3-0, krafturinn í liðinu, sem og í stúkunni var einstakur. Þá kom handboltalandslið kvenna sér á EM með sigri á Færeyjum, sem ánægjulega komust líka áfram, og því var vel fagnað á Ásvöllum. 

Ég kynntist svo nýrri íþróttagrein í vikunni með heimsókn í Rafíþróttasamband Íslands. Það eru 17 þúsund iðkendur í þessar hraðvaxandi íþrótt, flestir þeirra strákar. Það kom mér skemmtilega á óvart að heyra hversu vel er verið að vinna með ungum drengjum, sem í sumum tilfellum upplifðu mikla félagslega einangrun áður en þeir fundu sinn stað í þessu mikilvæga samfélagi. Þjálfarar leggja líka mikla áherslu á heilbrigt líferni og virðingu í hvernig við tölum um og við hvort annað í hita leiksins.

Andleg heilsa ungs fólks er mér hugleikin, og ræddi ég það meðal annars í hlaðvarpsviðtali hjá Þórarni Hjartarsyni. Ég er sannfærð um að hreyfing, félagsleg tengsl og innri vinna eru heilbrigð “geðlyf” sem við þurfum öll á að halda.

Baklandið virkjað

Undanfarið höfum við haldið nokkra fjölmenna viðburði með stuðningsfólki og farið í heimsóknir, bæði á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Okkur hefur alls staðar verið vel tekið og við fögnum tækifærum til að eiga einlæg samtöl um þau mörgu mál sem brenna á okkur öllum. Mánudaginn 15. apríl ætlum við Bjössi að hitta stuðningsfólk og aðra gesti á Akranesi. Við verðum í sal Samfylkingarinnar að Stillholti 16-18, klukkan 18 og hlökkum til að hitta öll sem vilja koma. Í dag, miðvikudaginn 10. apríl, klukkan 20, bjóðum við sjálfboðaliða í baklandi okkar á kosningaskrifstofuna að Ármúla 13. Þangað eru allar vinnufúsar hendur velkomnar!

Hlekkur á viðburð: https://www.facebook.com/events/1472698310323171/

Kynnist frambjóðendum

Við erum mörg í kjöri til forseta í þetta sinn og það getur verið svolítið flókið fyrir kjósendur sem langar til að kynna sér frambjóðendur vel. En við skulum fyrst og fremst fagna lýðræðinu og að talsverður fjöldi frambærilegs fólks skuli gefa kost á sér. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur frambjóðendur eins vel og kostur er. Ég legg mig fram um að gera minn bakgrunn og mína sýn öllum aðgengileg. Í síðustu viku las ég bókina mína inn á Storytel. Þar verður hún aðgengileg á næstunni fyrir þá sem hug hafa á að kynnast mér og minni framtíðarsýn betur.

Mér hefur einnig verið boðið í hlaðvörp undanfarið, þar á meðal Eina pælingu með fyrrnefndum Þórarni, fótboltahlaðvarpið Slána inn og heilsuhlaðvarpið Með lífið í lúkunum. Enn fremur fannst mér gaman að tala við Gunnar Smára Egilsson í myndvarpinu Rauða borðinu hjá Samstöðinni. Við höfum núna tekið saman spilunarlista (playlist) á Spotify með helstu viðtölum og hlaðvörpum, sem ég hef heimsótt. Hann er að finna hér.