Brúarsmíði á Bessastöðum

Birt þann
11.4.2024

Ég ber mikla virðingu fyrir brúarsmiðum, þessu magnaða handverksfólki sem hefur frá örófi alda aukið öryggi samborgara sinna og stytt vegalengdir milli áfangastaða. En ég ber líka ómælda virðingu fyrir fólki sem hefur helgað líf sitt brúarsmíði milli kynslóða og þjóðfélagshópa. Þetta hafa bestu leiðtogar mannkynssögunnar gert; stjórnmálafólk, kennarar, listafólk og forystufólk í atvinnulífi eða á öðrum sviðum samfélagsins. Þetta eru fyrirmyndir að mínu skapi og ég hef freistað þess að ganga í fótspor þeirra.

Fáum yngsta og elsta fólkið að borðinu

Ég vel að vera brúarsmiður. Mig langar til að nýta Bessastaði til þess að leiða ólíka hópa saman til samtals og samstarfs. Það er sérstaklega mikilvægt að fá unga fólkið að borðinu til að móta  framtíðina sem bíður þeirra, en jafnframt verður að virkja reynslu og visku eldra fólks. Ég trúi á þessi samtöl. Ég var svo lánsöm að fá að taka þátt í virku samtali kynslóðanna um mótun framtíðarinnar á Þjóðfundinum 2009. Þar kom í ljós að það skipti ekki máli hvort þátttakendur voru átján ára eða áttræðir, öll höfðu margt fram að færa. Þegar á hólminn var komið vorum við mun oftar sammála en ósammála. 

Kynslóðajafnrétti snýst um samtal og samstarf

Síðan þá  hef ég tekið samtal og samstarf  kynslóðanna með mér inní störf mín hjá B Team. Við höfum þannig leitt saman ólíka hópa um allan heim. Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu leiddum við saman stjórnvöld, atvinnulíf, aktívista, háskóla- og listafólk til að ræða hvernig við gætum hraðað orkuskiptum og aukið þannig orkuöryggi í Evrópu. Í Afríku leiddum við saman fjárfesta, fyrirtæki, ungt fólk, stjórnvöld og góðgerðarsamtök til að ræða og hanna réttlát umskipti fyrir Afríku. 

Við hjá B Team höfum boðið fulltrúum ungu kynslóðarinnar á flesta fundi okkar og njótum þess að leita með þeim lausna við áskorunum sem næstu kynslóðir munu að öðrum kosti þurfa að takast á við. Ég þekki ekki neinn sem ekki vill skilja heiminn eftir í betra ástandi fyrir sína afkomendur. Um það hljótum við öll að vera sammála og um það snýst kynslóðajafnrétti.

Kosningaskrifstofa opnuð á laugardag

Á laugardaginn kemur, 13. apríl, opnum við kosningaskrifstofu á 3.hæð að Ármúla 13 í Reykjavík. Við bjóðum gestum og gangandi að að kikja inn og þiggja léttar veitingar á milli klukkan 14 og 16. Verið öll hjartanlega velkomin, hvort heldur þið eruð stuðningsfólk og vinir eða bara forvitnir kjósendur að kynna ykkur frambjóðendur.

Opið hús á Akranesi á mánudag

Við Bjössi ætlum síðan að skjótast upp á Skaga á mánudaginn kemur, 15. apríl, heimsækja vinnustaði og halda svo opið hús klukkan 18. Skagamenn eru einstakt fólk og við hlökkum til  þessa stutta ferðalags þótt Bjössi hafi reglulega komist í hann krappann  þegar Grindvík keppti við ÍA á árum áður. Fundurinn verður  í sal Samfylkingarinnar að Stillholti 16-18 og við verðum tilbúin með heitt á könnunni klukkan 18. Við hlökkum til að hitta  sem flesta Akurnesinga á mánudaginn!