Takk fyrir möttökurnar!

Birt þann
24.3.2024

Vika er liðin frá því við tilkynntum framboð í Grósku og ef mér skjátlast ekki eru 69 dagar til kjördags í dag, sunnudaginn 24. mars. Við ætlum að leyfa ykkur að fylgjast með framboðinu í reglulegum pistlum  þar sem ég fer yfir hápunkta vikunnar og velti vöngum yfir framhaldinu.

Húsfyllir og stemning í Grósku

Ég var orðlaus og djúpt snortin þegar hundruð stuðningsfólks fjölmenntu í Grósku til að vera viðstödd tilkynninguna um framboð. Stemningin var einstök og ég átti hreinlega erfitt með mig þegar Vigdís, vinkona mín og kosningastjóri, kallaði mig upp á svið. Sem fyrr stappaði Björn í mig stálinu. Ómetanlegur í blíðu sem stríðu. Í stuttu ávarpi lagði ég áherslu á að ég trúi á samfélag sem hefur hugrekki til að virkja sköpunarkraft sinn til framfara á grunni friðsældar, jafnréttis og sjálfbærni. Í takti við það er slagorð framboðsins Samhent og skapandi þjóð

Pönnukökur og meðmæli mömmu

Á þriðjudag hitti ég  hóp eldra fólks í Gullsmára í Kópavogi en þar býr elsku mamma, Kristjana Sigurðardóttir þroskaþjálfi. Mamma bakaði pönnukökur í tilefni dagsins og var jafnframt fyrst kjósenda til að skrifa á meðmælalista minn. Íbúar og gestir bentu mér mörg á að það fylgdi því ákveðinn hátíðleiki að skrifa undir með eigin hendi í stað þess að gera það rafrænt.  Reyndar þarf fólk að vanda sig til að enda ekki sjálft í framboði, þegar skrifað er rafrænt á meðmælalista, eins og henti víst nokkra tugi mönnum til mikillar skemmtunar. Söfnun meðmælenda gekk ákaflega vel og við náðum tilskildum fjölda á skömmum tíma.

Hlaðvarp um hjónabandið

Á miðvikudag mættum við Björn saman í hlaðvarpið Tölum um. Þar ræddum við meðal annars um hjónabandið og hvernig við höfum stutt hvort annað gegnum lífsins ævintýri og áskoranir. Við deildum meðal annars sögunni af því hvernig við kynntumst. Til að taka af allan vafa, þá átti ég sannarlega kærasta þegar ég hitti Björn fyrst, en ekki þegar við felldum löngu síðar saman hugi.

Baklandið í Hannesarholti

Við vorum svo alla vikuna að þétta raðirnar á stórum sem smáum fundum með okkar einstaka baklandi. Það var þröng á þingi við eldhúsborðið heima frá morgni til kvölds. Stuðningshópurinn vex og dafnar og í gærmorgun, laugardag, var fjölsóttur fundur stuðningsfólks í Hannesarholti við Grundarstíg  undir yfirskriftinni Baklandið virkjað. Vinkona mín Guðrún Pétursdóttir opnaði fundinn og Kristján Jóhannsson leiddi hópinn í kraftmiklum samsöng við fundarlok. Engin orð fá lýst hversu þakklát ég er fyrir þann fjölbreytta hóp sem kemur saman að þessu framboði, en ef ég á að taka  einn hóp  út fyrir sviga, þá eru það ungar konur sem hafa fylkt liði og leggjast svo sannarlega á árar fyrir framboðið. 

Spurt og svarað

Það er krefjandi að vera í framboði og í mörg horn að líta. Ég legg mig fram um að  svara öllum skilaboðum og spurningum, en ef mér mistekst það hvet ég fólk til að minna  á sig. Það er eðlilegt að upp komi ýmsar spurningar um mig og mína meðframbjóðendur og ég lít á það sem skyldu okkar að svara kjósendum með gegnsæjum hætti. Á vefsíðu framboðsins má núna finna ýmsar spurningar sem ég hef  fengið og svör við þeim. Það má senda viðbótarspurningar til mín með tölvupósti. Ég geri mér grein fyrir því að við lifum á tímum upplýsingaóreiðu og geri mitt besta til að svara öllum spurningum kjósenda og fjölmiðla skýrt og heiðarlega. Ég hvet mitt stuðningsfólk  eindregið til að sýna tillitssemi og virðingu í samskiptum og ummælum um meðframbjóðendur mína. Saman getum við slegið annan tón en þann sem virðist stundum ráða ríkjum í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum – ekki síst í kosningabaráttu – og hefur ekki góð áhrif á nokkurn mann.

Virðing fyrir leikskólakennurum

Í vikunni fóru tvær fréttir á flug þar sem ég taldi brýnt að skýra málin og koma í veg fyrir að misskilningur fengi að þrífast. Í fyrsta lagi var það gömul frétt frá árinu 2016 þar sem ég var talin móðga leikskólakennara. Í þeirri frétt er einfaldlega snúið út úr orðum mínum, enda ber ég ómælda virðingu fyrir leikskólakennurum og hef ítrekað spurt hvers vegna  við greiðum svo miklu hærri laun þeim sem passa peningana okkar heldur en til hinumsem kenna börnunum okkar. Báðar systur mínar eru leikskólakennarar, önnur menntuð sem slík og hin hefur verið verðmætur starfsmaður á leikskóla alla tíð. Ég hef breitt bak og stórt hjarta og segi bara við ykkur kæru vinir að systur mínar eiga betra skilið en að svona rangfærslum  sé dreift.

Stolt af ferilskránni

Þá kom einnig upp frétt um að ég hefði mögulega reynt að fegra ferilskrá mína þar sem einhverjar fréttir frá fyrri árum hefðu sagt mig útskrifast úr Auburn University at Montgomery og aðrar bara sagt Auburn University. Bara svo það sé öllum skýrt, þá er ég stolt að hafa útskrifast úr Auburn University at Montgomery, sem er undir sömu stjórn og Auburn University, en rekinn sjálfstætt. Ég útskrifaðist með hæstu einkunn  og var valin nemandi skólans (Chancellor’s Scholar). Þar var ég jafnframt framkvæmdastjóri fótboltaliðsins, sem þá var glænýtt og sannfærði marga íslenska vini og fótboltamenn um að ganga til liðs við okkur. Ég svaraði þessu öllu saman skilmerkilega, bæði á Vísir.is og í útvarpsviðtali á Bylgjunni. Ég fagna því að kjósendur kynni sér ferilskrá frambjóðenda. Náms- og starfsferil minn má fiinna á vefsíðu framboðsins.

Lóan er komin!

Lóan er komin og við tökum brosandi á móti hækkandi sól. Við hlökkum til að hitta sem flesta og hvetjum hópa og vinnustaði til að hafa samband og saman könnum við möguleikann á heimsókn hvert á land sem er!